Tango

Tango

Tangófélagið var stofnað í apríl árið 2000 af nokkrum áhugasömum dönsurum, með það markmið að efla argentínskan tangó á Íslandi. Félagið stendur fyrir milonga (tangódanskvöld) á Kaffitári í Bankastræti öll miðvikudagskvöld og Milonga El Cramo í Kramhúsinu á föstudagskvöldum. Stærstu árlegir viðburðir á vegum félagsins eru tangómaraþonið Open embrace í febrúar/mars og alþjóðlega tangóhátíðin Tango on Iceland sem haldin er í ágúst.
Allt starf í þágu félagsins er unnið í sjálfboðavinnu og örlæti og dugnaður fjölmargra félagsmanna gera félaginu kleift að halda uppi öflugri starfsemi árið um kring. Tekjur af félagsgjöldum og milongum eru notaðar til að borga húsaleigu fyrir milongur félagsins og greiða niður stærri viðburði á borð við tangóhátíð og tangómaraþon. Í stjórn eru Ólöf Ingólfsdóttir formaður, Kristinn Jónsson gjaldkeri, Þórður Steingrímsson og Tryggvi Hjörvar.