Old Greenland

Old Greenland

Grænland byggðist frá Íslandi segir í fornum heimildum.  Þetta mun vera fyrsta og eina nýlenda Íslands í Vesturheimi.  Kynni mín af Grænlandi hófust í Verslunarskóla Íslands.  Ég valdi þetta dularfulla land til að skrifa um það ritgerð: Verslunarsaga Grænlands.  Hér vaknaði með mér sú hvöt að finna út hvað hefði orðið um Íslendingana sem byggðu þetta land en þeir gufuðu upp og hurfu af yfirborði jarðar.  Heimildir mínar sótti ég í bókaskáp foreldra minna, Íslendingasögur.  Þar er sagt frá upphafinu en engar vísbendingar um endalokin.  Aðrar heimildir sótti ég í danskar sem þeir dönsku sóttu til Íslands.  Ekki grunaði mig þá að ég ætti eftir að fara til Grænlands undir stjórn þeirra dönsku með Íslendingasögurnar upp á arminn til að uppgötva að þessi danska söguskoðun einfaldlega gekk ekki upp.  Þá hófst ég handa um að rannsaka sögu Grænlands á íslenskum forsendum og á íslensku.  Þetta er ferðasaga mín til að finna aftur Grænland hið forna, nýlendu Eiríks rauða í Vesturheimi en ég heiti Guðbrandur Jónsson og er flugmaður á þyrlur og flugvélar og skipstjóri á minni skip.