Hörður Torfa

Hörður Torfa

Ef það er hægt að lýsa Herði Torfasyni söngvaskáldi þá mætti kannski segja að hann hættir aldrei. Hörður er kominn á þann aldur að hann er farinn að gera grín að því en það er erfitt að trúa því þegar maður situr andspænis honum að hann sé degi eldri en fertugur.

Samt hlýtur hann að vera eitthvað eldri því það var 1970 sem hann söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar með ódauðlegum lögum eins og Ég leitaði blárra blóma og Þú ert sjálfur Guðjón bak við tjöldin svo aðeins tvö séu nefnd af þeim aragrúa laga sem hann hefur flutt okkur gegnum árin.

Hörður hefur verið búsettur í nokkrum löndum en er alinn upp í Skólavörðuholtinu og er löngu kominn heim og býr í litlu bakhúsi í gamla hverfinu sínu. Það er óhætt að segja að það sé lítið hús því einbýlishús sem er 49 fermetrar er óneitanlega lítið. Þar innan dyra er samt nóg pláss enda sagt að þar sem er hjartarúm þar er húsrúm. Þar bauð Hörður blaðamanni upp á heilsusamlegt te úr bláum katli og þessi líka fínu vínarbrauð.