Biopol sjávartæknisetur

Biopol sjávartæknisetur

Í apríl 2007 hófst á vegum sveitarfélagsins Skagastrandar hugmyndavinna að stofnun sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd í samstarfi við Hjörleif Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Í framhaldi af undirbúnings- og stefnumótunarvinnu stofnaði sveitarfélagið sjávarlíftæknisetrið Bio Pol ehf sem kom á fót rannsóknarsetri í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Stofnfé BioPol ehf. var 7.000.000 ISK og stefnt að því að fleiri hluthafar komi að því á næstu misserum ásamt því að stofna til samstarfs og tengsla við hliðstæðar rannsóknarstofur við Atlantshaf. Halldór Gunnar Ólafsson sjávarútvegsfræðingur var ráðinn sem framkvæmdastjóri BioPol ehf. Undirritaðir hafa verið samstarfssamningar við Háskólann á Akureyri, Scottish Association for Marine Science, Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar Íslands og Selasetur Íslands.

Kjarnastarfsemi setursins byggist á rannsóknum á lífríki Húnaflóa. Markmið rannsóknanna beinast m.a. að möguleikum á nýtingu sjávarfangs sem ekki hefur haft skilgreind not eða eiginleikar ekki verið þekktir. Einnig beinist rannsóknarstarfið að umhverfisvöktun með sérstaka áherslu á að fylgjast með breytingum á lífríkinu, áhrifavöldum og afleiðingum.